Af hverju eru skuldabréfasjóðir skilgreindir í skammtíma- eða langtímasjóði? |
 Það fer eftir fjárfestingarstefnu hvers sjóðs fyrir sig. Sumir eru skilgreindir sem skammtímasjóðir vegna þess að þeir fjárfesta í skuldabréfum með stuttan líftíma, t.d. 1–5 ár. Aðrir eru flokkaðir sem langtímasjóðir þar sem þeir fjárfesta í skuldabréfum með langan líftíma, þ.e. til fimm ára eða lengur. Til skamms tíma er meiri hætta á sveiflum í ávöxtun í löngum sjóðum en stuttum sjóðum. Því er mikilvægt að val á milli kaupa í löngum eða stuttum sjóði sé byggt á réttum forsendum og taki mið af markmiðum og fjárhagsaðstæðum hvers og eins. |
Er einhver lágmarksupphæð til að kaupa í sjóði? |
 Í flestum sjóðum eru lágmarkskaup 10.000 kr. en 5.000 kr. í áskrift. Í sumum sjóðum er þó önnur lágmarksupphæð og er hún tilgreind í ítarefni og útboðslýsingu hvers sjóðs. |
Er ég bundin(n) inni með fjármunina með því að fjárfesta í sjóðum? |
 Fjárfestar eru ekki bundnir inni í sjóðum fyrir utan nokkra daga sem það tekur að leysa eignarhlut þeirra úr sjóðunum. Í flestum verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum tekur það ferli tvo virka daga en tíminn getur verið lengri í sjóðum með erlendar eignir. Nánari upplýsingar um einstaka sjóði er að finna í ítarupplýsingum um hvern sjóð fyrir sig og í útboðslýsingum sjóðanna. |
Er hægt að vera í áskrift að sjóðum? |
 Hægt er að vera í áskrift að flestum sjóðum sem eru í boði hjá Arion banka. Lágmarksupphæð í áskrift er 5.000 kr. mánuði. Þegar viðskiptavinur er í áskrift að sjóði sér Arion banki um að skuldfæra af reikningi eða greiðslukorti um hver mánaðamót. Á upplýsingablöðum sjóðanna kemur fram hvort hægt sé að vera í áskrift að viðkomandi sjóði eða ekki. Veljir þú að vera í áskrift að sjóðum hlýtur þú 50% afslátt af gengismun viðkomandi sjóðs og afgreiðslugjald er fellt niður. Í Verðbréfahluta Netbankans getur þú stofnað áskrift að þeim sjóðum sem eru í boði. |
Hvað er áhætta? |
 Ef skoðuð er ávöxtun ýmissa fjárfestinga í tímans rás kemur í ljós að aukin ávöxtun hefur að jafnaði í för með sér meiri áhættu. Sú áhætta felst að miklu leyti í sveiflum á verði verðbréfa til skamms tíma. Þar sem verðsveiflur eru einn helsti mælikvarðinn á áhættu eru verðbréf með litlar verðsveiflur talin áhættulítil en verðbréf með miklar verðsveiflur talin áhættumikil. Áhætta getur einnig verið af öðrum toga. Almennt eru hlutabréf talin áhættusamari en skuldabréf, þar sem hlutabréfaeigendur standa aftar í kröfuhafaröð en skuldabréfaeigendur. Þessi staðhæfing á sérstaklega við um hlutabréf og skuldabréf útgefin af sama aðila eða svipuðum útgefanda. Einnig skiptir miklu máli hvaða útgefendur eru á bak við verðbréf í sjóðum. Löngum hefur verið rætt um að ríki séu traustari útgefendur en fyrirtæki, en þó er það of mikil einföldun eins og skuldavandræði fjölmargra vestrænna ríkja undanfarið hafa sýnt. Réttara er að segja að sjóðir sem hafa verðbréf útgefin af fjárhagslega sterkum útgefendum eru áhættuminni en sjóðir sem eiga verðbréf útgefin af ótraustum útgefendum. Nánar um áhættuflokkun. |
Hvað er átt við með kvarðanum “Áhættuflokkun”? |
 Stefnir hf. hefur skipt verðbréfa- og fjárfesingarsjóðum í rekstri félagsins í sjö flokka eftir staðalfráviki vikulegrar ávöxtunar sl. 5 ára. Flokkur 1 ber minnstu sveiflurnar í ávöxtun en flokkur 7 mestu sveiflurnar. Flokkun sjóðs getur breyst ef sveiflur undirliggjandi fjármálagerninga taka breytingum. Flokkunin grundvallast á leiðbeiningum Evrópsku verðbréfaeftirlitsstofnunarinnar (e. ESMA, áður CESR) um útreikning mælikvarðans. Mælikvarðinn byggir eingöngu á sögulegum sveiflum í ávöxtun. Ávöxtun í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um ávöxtun í framtíð og tekur ekki mið af þeim ýmsu áhættum sem verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir kunna að búa við í rekstri sínum. Þá kann flokkunin að breytast fyrirvaralaust. Áhættumælikvarðinn er ekki almenn lýsing á þeirri áhættu sem fylgir fjárfestingu í hlutdeildarskírteinum sjóða. Öllu heldur er um að ræða tölfræðilega, hlutbundna lýsingu á eignum þeirra fjölmörgu áhættuþátta sem geta verið til staðar við fjárfestingu í slíkum fjármálagerningum. Frekari umfjöllun um helstu áhættuþætti er að finna í útboðslýsingu hvers sjóðs. Bent er á að ekki er tryggt að sögulegar sveiflur í ávöxtun sjóðs hafi forspárgildi um framtíðarsveiflur í ávöxtun hans. Jafnframt er bent á að sjóðir í flokki 1 eru ekki áhættulaus fjárfesting og engin trygging er fyrir ávöxtun upphaflegrar fjárfestingar eða fullrar innheimtu hennar. |
Hvað er fjárfestingarsjóður? |
 Fjárfestingarsjóðir eru starfsleyfisskylt form sjóða um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Um fjárfestingarsjóði gilda aðrar reglur en um verðbréfasjóði að því er varðar fjárfestingarheimildir og innlausnarskyldu. Fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða eru rýmri samkvæmt lögunum og getur fjárfesting í þeim því verið áhættusamari en fjárfesting í verðbréfasjóðum. Fjárfestar eru hvattir til að hafa í huga þennan mun á fjárfestingarsjóðum og verðbréfasjóðum og kynna sér sérstaklega fjárfestingarstefnu sem gildir fyrir þá sjóði sem þeir eiga hlutdeildarskírteini í eða hyggjast fjárfesta í framtíðinni. Nánar um fjárfestingarsjóði Lög nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði |
Hvað er Stefnir? |
 Stefnir hf. er rekstrarfélag sjóða sem eru í sölu hjá Arion banka hf. Stefnir hf. er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 400 milljarða króna í virkri stýringu. Hjá Stefni starfa 23 sérfræðingar í fjórum teymum við stýringu á fjölbreyttu úrvali verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóða. Einnig stýrir félagið eignum nokkurra samlagshlutafélaga sem stofnuð hafa verið í kringum framtaksfjárfestingar. Stefnir var stofnaður árið 1996 og hefur á að skipa reynslumiklu starfsfólki með yfir 10 ára reynslu að meðaltali af störfum á fjármálamarkaði. Félagið hefur allt frá upphafi verið í fararbroddi í þróun á nýjum tegundum sjóða, jafnt fyrir einstaklinga sem og fagfjárfesta. Við þróun og stýringu sjóða er fyrst og fremst horft til hagsmuna viðskiptavina. Stefnir telur að traust og trúnaður séu forsendur langtímasambands við viðskiptavini. Því er lögð mikil áhersla á heiðarleika í samskiptum og gegnsæi í upplýsingagjöf. Sjá nánar á www.stefnir.is |
Hvað er verðbréfasafn? |
 Verðbréfasafn er vörslustaður verðbréfa. Á verðbréfasafninu geta m.a. verið sjóðir, hlutabréf og skuldabréf. Verðbréfasafn er stundum nefnt sjóðasafn. Verðbréfasafn er stofnað samhliða vörslureikningi. |
Hvað er verðbréfasjóður? |
 Verðbréfasjóðir eru söfn skuldabréfa, hlutabréfa og ýmissa annarra auðseljanlegra verðbréfa auk innlána. Sjóðirnir eru samsettir með mismunandi hætti. Íslenskir verðbréfasjóðir starfa samkvæmt lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Markmið laganna er m.a. að tryggja skilvirka neytendavernd, en í lögunum er rekstri sjóðanna settar margvíslegar skorður. Samkvæmt lögunum eru allir sjóðir reknir af rekstrarfélagi sem er sjálfstætt fjármálafyrirtæki. í tilviki flestra sjóða sem Arion banki selur er rekstrarfélagið Stefnir hf. Með innlausn er átt við þegar viðskiptavinur skilar inn hlutdeildarskírteinum (innleysir þau) og fær í skiptum reiðufé á reikning sinn. Upphæðin sem viðskiptavinur fær jafngildir fjölda eininga sem hann á í sjóðnum (innleysir) margfaldaðar með gengi sjóðs á innlausnardegi (að frádregnu afgreiðslugjaldi og að teknu tilliti til skattalegs uppgjörs). Fjárfestingarstefna íslenskra verðbréfasjóða er ákveðin fyrirfram og geta fjárfestar þannig kynnt sér heimildir sjóða áður en til fjárfestingar kemur. Fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs verður ekki breytt nema að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins sem hefur eftirlit með starfsemi viðkomandi rekstrarfélags og þar með sjóðsins. Nánar um verðbréfasjóði
Lög nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði |
Hvað er vörslureikningur? |
 Vörslureikningur er bankareikningur sem tengist verðbréfasafni. Vörslureikningur er nauðsynlegur vegna uppgjörs viðskipta með verðbréf og aðra fjármálagerninga (hlutabréf, skuldabréf, sjóði o.s.frv.). Fjárhæðirnar fara ýmist inn á eða út af reikningnum eftir því hvort verið er að kaupa eða selja. Arðgreiðslur og vextir af verðbréfum eru einnig lagðar inn á vörslureikning. Hægt er að stofna vörslureikning í Netbanka Arion banka eða í næsta útibúi. Athugaðu að koma með lögleg skilríki, þ.e. vegabréf eða ökuskírteini. Við mælum með að stofnaður sé samhliða netbanki þar sem veittur er afsláttur af sjóðaviðskiptum sem eru framkvæmd í netbankanum. Vörslureikningur er stundum nefndur verðbréfareikningur. |
Hvað eru viðvarandi gjöld? |
 Rekstrarfélag sjóðanna, Stefnir hf., reiknar og birtir viðvarandi gjöld fyrir verðbréfa- og fjárfestingarsjóði í rekstri félagsins samkvæmt leiðbeinandi tilmælum FME nr. 3/2015. Viðvarandi gjöld er birt sem hlutfall heildarkostnaðar af meðaltali hreinna eigna sjóðs á ársgrundvelli. Við útreikninginn teljast til gjalda allir kostnaðarliðir sem sjóður ber. Er þar m.a. átt við allar greiðslur til rekstrarfélags, vörslufyrirtækis og fjárfestingarráðgjafa, allar greiðslur vegna útvistaðrar þjónustu, skráningar og eftirlitsgjalda, endurskoðunar og lögfræðilegrar ráðgjafar. Ýmis gjöld falla þó ekki þar undir svo sem gjöld eða umboðslaun fyrir sölu og innlausn hlutdeildarskírteina, vextir af lánum og miðlunarkostnaður. |
Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég tek ákvörðun? |
 Viðhorf til áhættu: Þar sem verðsveiflur eru einn helsti mælikvarðinn á áhættu eru fjármálagerningar með litlar verðsveiflur taldir áhættulitlir en fjármálagerningar með miklar verðsveiflur taldir áhættumiklir. Ef halda á áhættu í lágmarki er því gott að velja sjóð með litlum verðsveiflum. Ef vilji er fyrir því að taka meiri áhættu í þeim tilgangi að reyna að ná enn hærri ávöxtun er gott að velja sjóð með meiri sveiflum í ávöxtun. Athugið að áhættumælikvarði tekur einungis til sögulegra verðsveiflna sjóðsins og því er ekki tekið tillit til tapsáhættu í þeim mælikvarða. Áhættuþol fer að miklu leyti eftir því hve lengi á að spara og fjárhagsstöðu viðkomandi. Þeir sem ætla að leggja fyrir til langs tíma eru oft betur í stakk búnir til að taka meiri áhættu við að hámarka ávöxtun heldur en þeir sem koma til með að spara til skemmri tíma. Fjárhagsstaða getur einnig haft áhrif á hversu mikla áhættu er æskilegt að taka við ávöxtun sparifjár. Mikilvægt er að taka tillit til markmiðs fjárfestingar en ef sparnaður á að vera varasjóður, og ekki er í aðra sjóði að sækja komi til fjárhagslegra áfalla, er æskilegra að velja áhættuminni sjóði fyrir sparnaðinn. Fjárfestingartími: Því lengri sem fjárfestingartíminn er þeim mun meiri möguleikar eru á hærri ávöxtun. Ef ætlunin er að fjárfesta til skamms tíma er æskilegt að taka minni áhættu og velja sjóð með litlum gengissveiflum. Þegar fjárfest er til langs tíma aukast sveiflur í ávöxtun en á móti er meiri möguleiki á hærri ávöxtun. Munurinn á milli sjóða sem fjárfesta til skamms eða langs tíma eru gengissveiflur eigna í sjóðnum. Eignir til skamms tíma, t.d. nokkurra mánaða, hafa litlar gengissveiflur á meðan eignir til nokkurra ára geta sveiflast töluvert mikið. Mikilvægt er þó að að hafa í huga að hærri ávöxtun er almennt talin hafa í för með sér meiri áhættu. |
Hvaða kostnaður fylgir viðskiptum með sjóði? |
 Þegar viðskiptavinur fjárfestir í sjóði eru kaupin skráð á sölugengi sjóðsins en þegar viðskiptavinur tekur eignahlut sinn út, fer hann úr sjóðnum á kaupgengi sjóðsins. Söluþóknun: Við kaup í sjóðum er innheimt söluþóknun í formi mismunar á kaup-og sölugengi (einnig kallað gengismunur eða upphafsþóknun). Söluþóknun er ekki innheimt við kaup í Stefni - Lausafjársjóði. Veittur er 25% afsláttur af söluþóknun sjóða Stefnis hf. ef keypt er í gegnum Netbanka Arion banka. Afgreiðslugjald: Innheimt af öllum viðskiptum í sjóðum í samræmi við verðskrá Arion banka. Afgreiðslugjald fellur niður þegar um er að ræða reglulegan sparnað i sjóðum. Ekki er tekið afgreiðslugjald af viðskiptum í netbanka. Umsýsluþóknun: Árleg umsýsluþóknun er innheimt og fer í að greiða rekstrarkostnað sjóða. Tekið er tillit til umsýsluþóknunar við daglegan útreikning á gengi og ávöxtun þeirra. Umsýsluþóknun er því dregin frá við útreikning á ávöxtun og gengi sjóða. Nánari upplýsingar um kostnað má finna í ítarefni um sjóðina og útboðslýsingum þeirra. |
Hvaða sjóður hentar mér best? |
 Sá sjóður er bestur sem hentar þínum fjárfestingarmarkmiðum hverju sinni. Ráðlegast er fyrir þig að velja sjóð samkvæmt þinni eigin afstöðu til áhættu og því hve lengi þú hyggst eiga fjárfestinguna. |
Hvernig ávaxtast eignin mín? |
 Þegar þú fjárfestir í sjóði eignast þú einingar í honum og það er verðbreyting þessara eininga sem ákvarðar ávöxtun þína frá einum tíma til annars. Gengi eininganna breytist á hverjum viðskiptadegi og ávöxtun verðbréfasjóða er þannig sveiflukennd. Gengið getur verið hærra eða lægra en sú fjárhæð sem þú upphaflega fjárfestir fyrir. Athugaðu að þegar þú átt viðskipti með sjóði liggur gengið ekki fyrir fyrr en í lok viðskiptadags þegar búið er að loka fyrir viðskipti. Viðskiptagengi er að jafnaði birt næsta virka dag. Þetta er gert til að gæta jafnræðis milli hlutdeildarskírteinishafa. |
Hvernig fæ ég hæstu ávöxtun? |
 Þegar skoðuð er ávöxtun á fjármálamörkuðum síðastliðna öld sést að fjárfestingar í hlutabréfum gefa að jafnaði hæstu ávöxtun verðbréfa ef fjárfestingartíminn er langur, það er að segja að minnsta kosti þrjú ár eða lengur. Ef leitað er eftir fjárfestingu til skemmri tíma er ráðlegra að velja sér skuldabréfasjóð eða blandaðan sjóð. Athugaðu að þú getur verið að taka meiri áhættu með því að fjárfesta í fjármálagerningum sem gefa af sér hærri ávöxtun. |
Hvernig get ég keypt í sjóði? |
 Viðskipti með sjóði framkvæmir þú í gegnum Netbanka Arion banka.
Ef þú ert ert ekki með netbankaaðgang og ert að kaupa í sjóðum í fyrsta skipti þá byrjar þú á því að fara í næsta útibú til að stofna vörslureikning og opna aðgang að netbanka. Hafðu með þér löggild skilríki, þ.e. vegabréf, nafnskírteini eða ökuskírteini. Viðskiptavinir fá 25% afslátt af gengismismun við kaup í sjóðum í Netbankanum. |
Hvert leita ég aðstoðar um sjóðina? |
|
Vörsluþóknun |
 Árlega greiðir viðskiptavinur í verðbréfaþjónustu vörsluþóknun. Hjá viðskiptavinum í eignastýringu er vörsluþóknunin gjaldfærð mánaðarlega. Vörsluþóknunin er m.a. til að standa straum af gjaldi til Nasdaq Verðbréfamiðstöðvar hf. og erlendra vörsluaðila vegna vörslu verðbréfa. Jafnframt útsendingar árlegra yfirlita til viðskiptavina, afstemmningar á eignum við verðbréfamiðstöð og erlendra vörsluaðila, vöktunar vegna arðgreiðslna, afborgana skuldabréfa, útdrætti húsbréfa og samanburði við erlendar og innlendar gengisveitur svo eitthvað sé nefnt. Á afurðum Arion banka sem og sjóðum Stefnis hf. er gefinn 100% afsláttur af vörsluþóknunum. |